Sykur fyrir sálina

Viðtal við Erlu Gerði Sveinsdóttur, yfirlækni Heilsuborgar.

Frá örófi alda hefur maðurinn haft smekk fyrir sætu bragði. En af hverju er það svona heillandi?

„Það er engin tilviljun að okkur líkar vel sætt bragð, það er okkur eðlilegt,“ segir Erla Gerður Sveinsdóttir, yfirlæknir Heilsuborgar sem hér skoðar með okkur hinar ýmsu hliðar sykurneyslu. Líkami okkar hvetur og umbunar okkur þegar við innbyrðum sætu, sem var hið besta mál í árdaga þegar orka var af skornum skammti. Í dag er líkaminn alveg eins stilltur, en aðstæður okkar allt aðrar þar sem framboð og aðgengi að sætindum er gríðarlegt.

Strax í upphafi hvetur sæta bragið af brjóstamjólkinni hvítvoðunga til að nærast. Sykur meltist hratt og orkan sem hann gefur kemur fjótt sem er mjög gott þegar við þurfum að bregðast við þegar hætta steðjar að. Í náttúrunni eru ætir hlutar plantna oftast sætir en eitur er frekart biturt þó undantekningar séu þar á. Sæta bragðið kemur þannig víða við sögu og hefur áhrif bæði á bragðlaukana okkar og þau kerfi heilans sem umbuna okkur – með sitthvorum hættinum þó.

Enn bætist við að munnholið er mjög næmt svæði sem skilar heilanum fljótt sterkum skilaboðum. Sefjunarkerfi mannslíkamans sem tengist munnholinu er mjög öflugt og sem dæmi þá nota börn snuð til að finna þessa sefjun. Á sama hátt veitir sætur moli stundarró en bara í örstutta stund. Það er því freistandi að borða fyrir sálina. Afleiðingarnar eru ekki alltaf heillavænlegar því svo á líkaminn eftir að vinna úr orkunni sem inn kemur. Blóðsykursveiflurnar sem fylgja gera illt verra og líkaminn kallar á meira af sykri. Því það er alveg sama hvað við borðum mikið fyrir sálina, hún lagast ekki við það og því er mikilvægt að skoða aðrar leiðir, segir Erla.

Markaðurinn nýtir sér veikleika okkar

Markaðsöflin þekkja vel hvernig okkur er eiginlegt að bregðast við og nýta það til hins ýtrasta með því að gera matvæli sætari og auðvelda aðgengið að þeim á allan hátt. Neytendur geta lent í vítahring þar sem bragðlaukarnir þurfa sífellt meira af sykri til að nema sæta bragðið, sveiflurnar í blóðsykri hvetja til meiri neyslu, heillinn kallar á meira til að ræsa umbunakerfið, í umhverfinu er mikil streita og lífsins flækjur kalla á örlitla ró – umhverfið æpir á okkur að innbyrða meira, auðveldara, girnilegra, litríkara og sætara.

Ef við erum komin í ógöngur með sykurneysluna í okkar daglega lífi þá er ekkert annað í stöðunni en að snúa við. Sumir vilja taka sykurinn út í einu skrefi – og þá um aldur og ævi. Það fer ekki alltaf vel. Margir þekkja að þegar eitthvað er bannað í mataræðinu þá langar mann enn meira í það. Erla segir að það henti mörgum að fara jákvæðu leiðina að markmiðinu. „Við setjum þá inn meira af hollum mat og þá fjarar óhollustan smám saman út of þörfin fyrir sæta bragðið minnkar.“ Þannig lendi menn ekki í togstreitu, enda er í góðu lagi fyrir flesta að fá sér sætan mola af og til. Erla segir að það sú nálgun sé líkleg til að skila betri árangri til lengri tíma litið en hver og einn þarf að finna sína leið. „Stöldrum aðeins við og skoðum málin. Hvar er ég, hvert vil ég fara, hverju vil ég breyta, hverju get ég breytt, hvað get ég gert núna til að komast einu skrefi nær áfangastaðnum?“ Við ættum að stefna að því að lágmarka sykur og fínunnin kolvetni í daglegu fæði og láta okkur líða vel með það, njóta matarins, leggja áherslu á að halda heilsu og halda lífsgleðinni, allt á okkar eigin forsendum. Það er leið sem líkleg er til að endast,“ segir Erla.

Álag hækkar blóðsykur

En blóðsykurinn hækkar ekki bara þegar við borðum sykur. Þegar hætta steðjar að og streituviðbragðið fer í gang þá streymir blóðsykurinn út úr forðageymslum líkamans inn í blóðið og gefur okkur aukna tímabundna orku til að takast á við ógnina. En líkaminn leitar alltaf jafnvægis. Insúlín er hormón sem lækkar blóðsykurinn á ný og kemur þannig á jafnvægi. Það hækkar í kjölfarið á hækkun blóðsykursins til að koma orkunni inn í frumurnar til brennslu. „Vandinn er bara sá að frumur líkamans hafa ekki endilega þörf fyrir alla orkuna sem losnaði úr læðingi og þá er spurningin hvar er hægt að koma henni fyrir,“ segir Erla. „Jú – það eru hinar gestrisnu fitufrumur sem taka við orkunni og geyma hana vandlega“. Margar aðrar frumur líkamans geta smám saman komið sér upp vörn gegn þessu áreiti insúlínsins, svokallað insúlínviðnám, þannig að orkan kemst ekki lengur inn í frumurnar eins og áður, blóðsykur hækkar og ferillinn að sykursýki er hafinn.

Streita er fitandi

Í dag lifa margir í langvinnu streituástandi. „Þá truflast efnaskiptin og líkur aukast á að við fáum sjúkdóma á borð við sykursýki,“ segir Erla. Þegar isnúlínið er stöðugt hækkað og aukin orka er send inn í fitufrumurnar stækkar fituvefurinn. Hann framleiðir sjálfur ýmis hormón sem enn auka á þessa truflun efnaskiptanna og enn meiri fitusöfun á sér stað. Þannig á langvinn streita stóran þátt í tilurð bæði sykursýki og offitu.

„Við þurfum að spyrja okkur hvaðan öll þessi langvinna streita kemur,“ segir Erla. „Margir tengja ástandið við annríki og mikla vinnu, sem vissulega á sinn þátt, en það er svo ótal margt annað sem getur haldið okkur í streitu. Til dæmis erfiðar heimilisaðstæður, einelti, neikvætt sjálfstal, áföll sem hafa komið upp á lífsleiðinni og ekki verið unnið úr sem skyldi,“ segir Erla.

Megrunarstreita er líka fitandi

Margir þeirra sem glíma við offitu upplifa viðvarandi neikvæð viðbrögð frá umhverfi sínu. „Allir eiga að vera grannir og því miður eru fitufordómar víða í okkar þjóðfélagi. Þetta leiðir oft til þess að sjálfstalið verður neikvætt, viðkomandi upplifir að hann sé „aldrei nógu góður“ en það muni ábyggilega lagast ef hann léttist, segir Erla. Þannig hefst oft enn eitt átakið, enn einn megrunarkúrinn sem í reynd hvetur til fitusöfnunar vegna streitunnar sem fylgir megrun. Megrunarstreitan vinnur í raun á móti árangrinum og eykur enn á efnaskiptavandann. Þannig er megrun fitandi á fjölmarga vegu.

Heilsuborg veitir stuðning í baráttunni við sykurinn

„Meðvitund um mikilvægi heilsunnar hefur aukist og fólk vill gera það sem það getur sjálft til að halda góðri heilsu eða vinna með það sem þarf að laga,“ segir Erla. Þá er mikilvægt að fá fagfólk með sér í lið. Sumum dugar ráðgjöf til að koma sér af stað, aðrir þurfa meðferð í lengri tíma og jafnvel hjá fleiri en einum fagaðila í einu. „Reyndar er það svo að þegar heilsan fer að bila þá eru oft til staðar nokkur vandamál í einu til dæmis verkir, svefnleysi og depurð eða hreyfingarleysi, streita og ofþyngd. Þá næst ekki varanlegur árangur nema tekið sé á vandanum í heild sinni, þá er gott að eiga Heilsuborg í bakhöndinni.“ Með því að bjóða námskeið þar sem hreyfing, fræðsla og einstaklingsráðgjöf fer saman náum við því besta úr hverjum þætti. Í Heilsuborg leggjum við áherslu á að flétta þjónustuna saman við daglega lífið.

Alhliða lífsstílsnámskeið

Heilsulausnir hafa verið vinsælasta námskeið Heilsuborgar frá upphafi, um 4.000 manns hafa sótt það gegnum tíðina. Námskeiðið er í stöðugri þróun og er enn að eflast. Það er nefnilega eitt að vita hvað maður þarf að gera en annað að koma því inn í daglega lífið. Því er lögð enn meiri áherslu á það hvernig auðvelt er að koma hlutunum í framkvæmd og líða vel með það. Við höfum meðal annars notað heilsuappið frá Sidekick inn í námskeiðin okkar sem gerir eftirfylgd auðveldari og eykur fjölbreytni. Einnig höfum við bætt inn nálgun sem er að bandarískri fyrirmynd þar sem námsefnið var þróað fyrir einstaklinga sem greinast með forstig sykursýki og hentar vel til að fyrirbyggja sykursýki en það nýtist líka vel fyrir þá sem komnir eru með sjúkdóma svo sem sykursýki, offitu eða hjartasjúdóma. Þessi nálgun fléttast vel inn í Heilsulausnanámskeiðið okkar enda byggja bæði þessi námskeið á bestu þekkingu sem völ er á.

Viðtalið við Erlu Gerði birtist í sérritinu Sigraðu sykurinn sem gefið var út í tilefni af árvekniátaki um sykursýki í janúar 2019.

Erla Gerður Sveinsdóttir
læknir