Í bak og fyrir

Um snjallsímakryppur, brjósklos og aðrar óþarfa meinsemdir.
Hryggsúlan er einn flóknasti hluti beinagrindarinnar, nálægt 120 liðamót tilheyra henni og eru mörg hver viðkvæm fyrir slæmri líkamsbeitingu.
En hvað er slæm, eða góð, líkamsbeiting og af hverju vitum við flest svo lítið um hvernig við eigum að haga okkur þegar kemur að því að gera það sem fer best með hryggsúluna?

Staða sem ýtir undir snjallsímakryppu
Yfir 80% fólks fær einhvern tíma á lífsleiðinni „í bakið“ sem oft má rekja til lélegrar líkamsbeitingar, lélegs líkamsástands eða einfaldlega misbeitingar á hryggsúlunni.

Hryggsúlan hefur ákveðna uppbyggingu og lag þar sem hún er sterkust og þolir mest álag (mynd 1). Þetta er staða sem við viljum halda, t.d. þegar við beygjum okkur og tökum upp þunga hluti (hnébeygjur), sitjum við tölvuvinnu, eða skrifum á snjallsíma. Ef við hins vegar gefum eftir og lofum mjóbaks- eða háls- hryggjarsveigjunni að síga afturábak, eins og sýnt er með rauðri línu á mynd 2, förum við illa með innviði hryggþófanna og aukum verulega hættuna á að fá brjóskútbungun eða brjósklos, sem margir kannast án efa við. Auk þess er veruleg áreynsla á hálsvöðva og aukinn þrýstingur á hryggþófa, að halda höfði í þessari stellingu og má segja að þetta sé staðan sem ýtir undir það sem menn hafa verið að kalla „snjallsímakryppu“, enda þungi höfuðsins á milli fjögur og fimm kíló og sá þungi tvöfaldast við hverja þrjá til fimm sentimetra sem höfuðið sækir fram í þessa stöðu.

Þrýstingurinn, eða samþjöppunin í gegnum þessa viðkvæmu hryggþófa er helmingi meiri þegar við sitjum en þegar að við stöndum, þannig þrýstist vatnið út úr diskunum af meira afli í setstöðu heldur en þegar við stöndum. Þegar við stöndum erum við auk þess á mun meiri hreyfingu sem er afar nauðsynleg fyrir næringu og viðhald hryggþófanna. Þannig ættu allir þeir sem vinna mikið sitjandi að standa reglulega upp og hreyfa sig, eða finna leiðir til að vinna meira standandi t.d. með hækkanlegu skrifborði.

snjallsímakryppa, vinnustellingar

Viðunandi vinnuaðstaða
Við eigum ekki að þurfa að biðja um hækkanleg skrifborð þegar skaðinn er skeður, heldur til að fyrirbyggja hann. Það eru sjálfsögð réttindi að vinna við þannig aðstæður að við getum staðið og setið að eigin vild. Við eigum að gera allt sem kemur í veg fyrir að við sitjum allan daginn í sömu stöðu, hvort heldur sem er
á skrifstofunni eða skólastofunni. Hreyfingarleysi er mikill skaðvaldur í nútímasamfélagi sem ber að berjast gegn.

Fræðum börnin
Við eigum að sjá til þess að börnin okkar fái fræðslu um hvernig eigi að bera sig að, hvernig við eigum að velja og nota borð eða stól sem styður við hrygginn á sem bestan hátt og fræða þau um almenna líkamsbeitingu, uppbyggingu og gildi hreyfingar. Veltum fyrir okkur hvernig megi koma því við að börn geti staðið meira
við vinnu sína í skólanum, til dæmis með því að koma fyrir plötum í mismunandi hæð, við veggi, sem mætti halla og fella niður með einföldum hætti til að skapa meira rými.

Verkjavandamál tengd hryggsúlu, eru á meðal algengustu og dýrustu heilsufarsvandamála okkar Vesturlandabúa. Hægt er að koma í veg fyrir mörg þessara vandamála með aukinni fræðslu og þekkingu og hvar er betra að byrja en á ungu kynslóðinni?

Gunnar Svanbergsson
sjúkraþjálfari M.Tc. M.Sc

Greinin birtist í tímariti Heimilis og skóla