Í Heilsuborg eru engin vandamál sem ekki er hægt að leysa

Ég var byrjuð að vinna eftir fæðingarorlof en þurfti að hætta næstum strax aftur. Meðgangan hafði verið erfið, mín fyrsta. Ég var illa stödd líkamlega og þjökuð af verkjum. Ég var á vondum stað.
Ég þekkti aðeins til Heilsuborgar, hafði litið þar inn fyrir nokkrum árum. Þá var ég hrædd við að fara í einhverja líkamsrækt, sá fyrir mér að ég gæti ekki náð árangri. Það hafði alltaf verið sama sagan hjá mér í ræktinni, ég fór of hratt af stað og hélt svo ekki út. Ég var alltaf að hætta. Ég hefði sennilega ekkert leitað sjálf til Heilsuborgar en mér var vísað þangað af ráðgjafa hjá Virk, sem lið í starfsendurhæfingu.

Lítil skref í byrjun

Til að byrja með fór ég í sjúkraþjálfun og hitti sálfræðing hjá Heilsuborg. Ég byrjaði líka í Orkulausnum og líkaði vel. Þarna var byrjað hægt, tekin lítil skref í einu. Ég fór í framhaldsnámskeið í Orkulausnum og fann að ég tók framförum í hverjum tíma. Þá strax var ég ákveðin að halda áfram í einhverri hreyfingu, ég fann að þetta gerði mér svo gott. Til að glíma við verkina var ég á námskeiðinu Andleg líðan og verkir meðfram Orkulausnum. Í framhaldinu fór ég svo í Hugarlausnir og tók bæði grunninn og framhald. Nú er ég að byrja í Hugarlausnaklúbbnum, búin með 3 mánuði. Í Hugarlausnum lærði ég núvitund. Mér finnst það ótrúlega mikill kostur að vinna með andlegu hliðina líka og ég held því áfram í Hugarlausnaklúbbnum.

Í fyrsta sinn sem ég hlakka til að mæta í ræktina

Allt hitt var gott og ég virkilega finn mig í hreyfingunni í Hugarlausnum. Mér líður eins og þetta sé í fyrsta skipti sem ég hef virkilega hlakkað til að mæta í líkamsrækt. Þetta er líka í fyrsta sinn sem mér finnst ég finna raunverulegan árangur af því að hreyfa mig. Ég held að ástæðan sé sú að í Heilsuborg er lögð áhersla á að ekki sé farið of hratt af stað. Þjálfararnir í Orkulausnunum þurftu oft að stoppa mig af – en ýttu líka við mér þegar ég gat farið að gera meira.

Get verið nákvæmlega eins og ég er

Maður upplifir að geta verið nákvæmlega eins og maður er. Enginn er að reyna að koma manni inn í eitthvað, það er engin pressa. Allir eru á sínum forsendum og sínum hraða. Æfingarnar eru alltaf sýndar og það eru sýndar mismunandi útgáfur án þess að maður þurfi að biðja um það. Þjálfararinn sýnir þær og maður velur það sem hentar best.
Ég hélt líka að það væri mest eldra fólk í Heilsuborg og kom skemmtilega á óvart að hér er fólk á öllum aldri – það er enginn hópur af fólki sem er ekki hér.

Í Heilsuborg er passað upp á fólk

Í Heilsuborg er rosalega vel haldið utanum fólk, það er passað uppá alla. Almennt finnst mér metnaður hjá starfsfólkinu fyri því að mér gangi vel, því finnst mikilvægt að við náum árangri. Það er góð tilfinning.
Ég kom inn fyrir ári (í janúar 2018). Á þeim tíma gat ég ekki séð fyrir mér að ég yrði komin á þann stað sem ég er á núna. Fyrir ári gat ég ekki legið á gólfinu og leikið við litlu dóttur mína. Í dag er það ekkert mál og ég hugsa ekki einu sinni út í það. Fyrir ári var það veruleg áskorun að fara niður á dýnu og standa aftur upp en nú tek ég þátt í öllum æfingum í tímum.

Nú er ég nýbyrjuð að vinna og þó ég sé ekki komin með fulla starfsgetu ennþá stefni ég á 100% starf. Ég er mjög bjartsýn og jákvæð á framhaldið og stolt þegar ég horfi á þann árangur sem ég hef náð. Ég hef líka áttað mig á því hvað líkamsrækt er mikilvæg. Áður náði ég aldrei að halda hana út nema í stuttan tíma.

Best að taka bara eitt skref í einu

Ef ég ætti að gefa þeim ráð sem eru að byrja í Hugarlausnum þá myndi ég segja þeim að byrja bara og hugsa ekki endilega langt fram í tímann. Maður tekur bara eitt skref í einu og fær til þess góða leiðsögn.
Í Heilsuborg eru engin vandamál sem ekki er hægt að leysa, alltaf einhver sem maður getur leitað til. Mér finnst ég vera í öruggum höndum – og svo það þetta sem ég hef bara ekki upplifað annars staðar: Innilegur metnaður starfsfólksins fyrir því að manni gangi vel.

Birna Rebekka Björnsdóttir, þroskaþjálfi