Þjónusta vegna offitu og efnaskiftaaðgerða. Sérfræðingar Heilsuborgar taka utan um þig. heilsuborg.is

ÞJÓNUSTA FYRIR OG EFTIR EFNASKIPTAAÐGERÐIR VEGNA OFFITU

Heilsuborg veitir víðtæka þjónustu fyrir einstaklinga með offitu með það að markmiði að bæta heilsu og auka lífsgæði. Þjónustan er fjölbreytt og snýr bæði að líkama og sál.


Meðal þess sem Heilsuborg býður er undirbúningur fyrir efnaskiptaagðerðir (magaermi eða magahjáveitu) og stuðningur og eftirfylgni að aðgerð lokinni. Heilsuborg mælir ekki með magabandsaðgerðum en veitir engu að síður stuðning þeim sem hafa farið í slíka aðgerð.

Þjónustan stendur einstaklingum til boða hvort sem þeir kjósa að fara í aðgerð hérlendis eða erlendis, svo fremi að um vandaða og viðurkennda þjónustu sé að ræða. Mikilvægt er að vita að jafnvel þó undirbúningur og eftirfylgni séu vönduð þá felst ávallt áhætta í aðgerðum sem þessum.

Einstaklingar taka ávallt sjálfir ákvörðun um aðgerð í samvinnu við sinn skurðlækni – ákvörðun um hvort aðgerð er gerð og þá hvaða aðgerð. Með markvissum undirbúningi er stuðlað að því að þeir geti tekið vel upplýsta ákvörðun og séu meðvitaðir um nauðsyn lífstíðar eftirfylgni.

Þjónusta Heilsuborgar fyrir aðgerð

Áherslur í undirbúningi fyrir aðgerð:

 1. Einstaklingar verði í sínu besta mögulega heilsufarsástandi, líkamlegu sem andlegu, þegar aðgerð fer fram. Þannig eru mestar líkur á góðum árangri og minnstar líkur fylgikvillum.
 2. Einstaklingar séu vel upplýstir um eðli aðgerða, mismunandi tegundir þeirra og áhættu sem þeim fylgir. Þeir hafi þekkingu á því hvaða heilsufarslega ávinnings má vænta og hvernig eftirliti skuli háttað eftir aðgerð.
 3. Mikilvægt er að upplýsa einstaklinga sem ekki eiga erindi í efnaskiptaaðgerðir (samkvæmt viðurkenndum klíniskum leiðbeiningum) um aðrar leiðir til þess að bæta heilsu sína.

Eftirfarandi þjónusta stendur til boða í Heilsuborg:

 1. Hópfræðsla fyrir aðgerð
  Heilsuborg býður undirbúningsnámskeið sem nefnist Fræðsla fyrir aðgerð. Þar veita læknir með sérþekkingu á meðferð einstaklinga með offitu, skurðlæknir og næringarfræðingur fræðslu um mismunandi aðgerðir, mögulega fylgikvilla og heilsufarsleg áhrif þeirra. Einnig koma að námskeiðinu einstaklingar sem farið hafa í aðgerð vegna offitu og miðla af sinni reynslu.
 2. Einstaklingsviðtöl við lækni með sérþekkingu á meðferð einstaklinga með offitu
  Í viðtölunum eru heilsufar og áhættuþættir metin. Um er að ræða að lágmarki tvö viðtöl. Í upphafi er 30 mínútna viðtal þar sem farið er yfir heilsufarssögu. Síðan er nánara greiningarviðtal, 60 mínútur. Það er undirbúið með blóðrannsóknum, mælingu á líkamssamsetningu og spurningalistum um ýmsa þætti andlegrar og líkamlegrar heilsu. Í greiningarviðtalinu er sett upp áætlun sem miðar að því að hver einstaklingur vinni að því að ná sem bestri andlegri og líkamlegri heilsu ásamt því að fræðast um aðgerðina og mögulegar afleiðingar hennar. Læknir vísar til annarra fagaðila eða endurhæfingarúrræða þar sem þess er þörf og samhæfir meðferð.Til viðbótar við þessi fyrstu tvö viðtöl er gert ráð fyrir nokkrum viðtölum til eftirfylgni á þeirri áætlun sem lagt er upp með.Sjúkratryggingar Íslands niðurgreiða einstaklingsviðtölin fyrir einstaklinga með líkamsþyngdarstuðul (LÞS ) 40 og hærri, en einnig fyrir einstaklinga með LÞs yfir 35 sem eru með með fylgikvilla svo sem sykursýki, kæfisvefn, hjartasjúkdóma, háþrýsting eða blóðfituröskun. Önnur heilbrigðisþjónusta er ýmist greidd af sjúklingi sjálfum eða af Sjúkratryggingum í samræmi við gildandi reglur Sjúkratrygginga.Í þeim tilvikum sem einstaklingum er ekki ráðlagt að fara í ofangreindar aðgerðir eru þeir upplýstir um ástæður þess og bent á aðra meðferðarkosti sem bætt geta heilsu og lífsgæði.Læknir Heilsuborgar annast tilvísun vegna aðgerða á Landspítala ef sú leið er ráðlögð. Einnig gefur hann út vottorð ef viðkomandi á kost á niðurgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands og kýs að fara í aðgerð hjá viðurkenndri heilbrigðisstofnun erlendis.
 3. Stuðningur við heilsueflingu
  Einstaklingar eiga þess kost að nýta sér þjónustu fagaðila Heilsuborgar, hvort sem er í hópmeðferð eða einstaklingsmeðferð, til að stuðla að bættri heilsu. Námskeiðið Að stjórna eigin heilsu var sérstaklega þróað til að aðstoða fólk við að koma jafnvægi á daglegar venjur, bæta mataræði og draga úr streitu í dagsins önn. Í Heilsuborg býðst jafnframt einstaklingsþjónusta hjúkrunarfræðinga, íþróttafræðinga, næringarfæðinga, sálfræðinga, sérfræðilækna og sjúkraþjálfara. Kostnaður er samkvæmt verðskrá Heilsuborgar hverju sinni og standa einstaklingar sjálfir straum af honum með þeirri undantekningu að þjónusta sérfræðilækna og sjúkraþjálfun er niðurgreidd af Sjúkratryggingum Íslands þar sem það á við. Auk þess eiga margir þess kost að fá kostnaðinn niðurgreiddan hjá stéttarfélagi sínu.

Þjónusta Heilsuborgar eftir aðgerð

Miðað er við að skurðlæknar og aðrir fagaðilar sem koma að framkvæmd efnaskiptaaðgerðar annist eftirlit sjúklings fyrstu vikurnar eftir aðgerð. Eftir það tekur við reglubundið eftirlit í Heilsuborg.

 1. Fræðsla eftir aðgerð nefnist námskeið þar sem læknir, næringarfræðingur og sálfræðingur fara yfir ýmis atriði líkamlegrar og andlegrar heilsu í kjölfar aðgerða. Þar koma einnig að einstaklingar sem hafa undirgengist slíkar aðgerðir og miðla af reynslu sinni.
 2. Einstaklingseftirlit hjá lækni með sérþekkingu á meðferð einstaklinga með offitu.
  Eftirlit er með andlegri sem líkamlegri heilsu og fylgst með breytingu á samsetningu líkamans með leiðnimælingu. Blóðprufur eru teknar reglulega eins og mælt er fyrir um í klíniskum leiðbeiningum Evrópusamtaka um offitu. Miðað er við að einstaklingur verði útskrifaður úr formlegu eftirliti ári eftir aðgerð. Honum er þá vísað til heilsugæslu með upplýsingum um gang mála og leiðbeiningum um hvernig frekara eftirliti skuli háttað. Einstaklingar sem farið hafa í efnaskiptaaðgerðir geta sótt meðferð og stuðning í Heilsuborg þó langur tími sé liðinn frá aðgerð enda er meðferðin lífstíðarlöng.
 3. Stuðningur við heilsueflingu.
  Einstaklingar eiga þess kost að nýta sér þjónustu fagaðila Heilsuborgar, hvort sem er í hópmeðferð eða einstaklingsmeðferð, til að stuðla að bættri heilsu. Í Heilsuborg býðst jafnframt þjónusta hjúkrunarfræðinga, íþróttafræðinga, næringarfæðinga, sálfræðinga, sérfræðilækna og sjúkraþjálfara. Kostnaður er samkvæmt verðskrá Heilsuborgar hverju sinni og standa einstaklingar sjálfir straum af honum með þeirri undantekningu að þjónusta sérfræðilækna og sjúkraþjálfun er niðurgreidd af Sjúkratryggingum Íslands þar sem það á við. Auk þess eiga margir þess kost að fá kostnaðinn niðurgreiddan hjá stéttarfélagi sínu.

Þjónusta Heilsuborgar felur ekki í sér vaktþjónustu eða meðferð á bráðavanda sem upp getur komið fyrir eða eftir aðgerð. Einstaklingar sem hafa undirgengist efnaskiptaaðgerð vegna offitu eru sjúkratryggðir og fá þjónustu innan íslenska heilbrigðiskerfisins í samræmi við þarfir sínar hverju sinni.

FRÆÐSLA FYRIR AÐGERÐ
FRÆÐSLA EFTIR AÐGERÐ
AÐ STJÓRNA EIGIN HEILSU