Margvísleg áhrif streitu á heilsuna

Hvað er streita?

Streita er hugtak sem í daglegu tali er notað til að lýsa upplifun og líffræðilegu viðbragði einstaklings
við álagi. Þegar einstaklingur upplifir álag eða ótta af einhverjum toga eiga lífeðlisfræðilegar
breytingar sér stað í líkamanum, aukin seyting verður á streituhormónum á borð við adrenalín,
noradrenalín og kortísól sem gegna mikilvægu hlutverki í streituviðbragðinu. Blóðflæði eykst, sem og
hjartsláttur, blóðsykurinn hækkar tímabundið og líkaminn fær þannig aukinn kraft og einbeitingu
þegar álag eða ógn steðjar að. Slíkt er vissulega mjög hjálplegt en ekki má gleyma að yfirálag og
langvinn streita getur hins vegar haft skaðleg áhrif á lífsstíl okkar og heilsu, andlega sem og líkamlega.

Streita veikir varnir líkamans

Streita veldur truflunum á hormónastarfsemi líkamans og varnir hans veikjast smám saman. Sterk
tengsl eru við hækkun blóðþrýstings og meðfylgjandi hjarta- og æðasjúkdóma. Einnig eru tengsl við
offitu og sykursýki, sérstaklega hjá konum. Þegar einstaklingur upplifir streituálag án möguleika á
endurheimt eða hvíld er hætta á sjúklegri streitu eða örmögnun, engu skiptir hvort álagið á rætur að
rekja til vinnuaðstæðna eða einkalífs.

Sjúkleg streita

Birtingarmynd sjúklegrar streitu er margvísleg, en einkenni geta birtst í líkamlegum einkennum,
tilfinningalegum viðbrögðum, hegðun og hugarstarfsemi. Sjúkleg streita hefur mjög hamlandi áhrif á
líf og líðan og bataferlið getur tekið langan tíma.
Streitutengd vanheilsa er vaxandi vandamál í nútímasamfélagi. Rannsóknir í lýðheilsuvísindum hafa
sýnt fram á aukinn kostnað vegna veikindafjarveru sem tengist sálfélagslegum álagsþáttum.
Vísbendingar eru um að rekja megi 50-60% veikindafjarvista í Evrópu til streitu með einum eða
öðrum hætti. Hér á landi er streita ein helsta ástæða heilsubrests og brottfalls á vinnustöðum
landsins.

Vítahringur streitu, blóðsykurs og sykursýki

Þegar líkaminn seytir streituhormónum á borð við kortisól og adrenalín framleiðir lifrin meiri glúkósa
eða blóðsykur og líkaminn fær tímabundið aukna orku til að takast á við álagið. Öll lendum við í
tímabundnu álagi og flestir ráða við tímabundna hækkun blóðsykurs – líkaminn vinnur úr
blóðsykrinum og jafnvægi kemst á að nýju. Fyrir einstaklinga sem glíma við sykursýki getur hækkun á
blóðsykri sem tengist álagi verið varasöm og hið sama gildir um þá sem glíma við langvarandi
streituálag. Þeir síðarnefndu eru nefnilega í aukinni hættu á að þróa með sér slæmar matarvenjur
sem geta svo aftur haft neikvæð áhrif á blóðsykurinn. Um getur verið að ræða aukna neyslu á
skyndifæði eða óreglulegar máltíðir þar sem fólk gleymir að borða eða sleppir heilu máltíðunum.

Ástæðan getur verið tímaskortur eða lítil tilfinning fyrir svengd. Einnig er algengt að neysla á sykur-
og hitaeiningaríkum mat aukist þar sem fólk nær sér í skyndiorku. Slík fæða er því miður oft ekki
næringarrík, orkan dugir því skammt og hefur á endanum neikvæð áhrif á andlega og líkamlega líðan.
Þannig getur myndast vítahringur streitu, þreytu, óheppilegra matarvenja og hreyfingarleysis. Um
leið aukast líkur á hormónatruflunum, hækkun blóðsykurs, þyngdaraukningu og þreytu – sem svo
leiðir af sér enn meira hreyfingarleysi. Vítahringur sem þessi getur til lengri tíma haft áhrif á þróun
sykursýki 2.

Streita tengd sykursýki 1 og 2

Þeir sem glíma við sykursýki, hvort sem um er að ræða tegund 1 eða 2, upplifa oftar en ekki streitu í
tengslum við sjálfan sjúkdóminn. Sjúkdómurinn getur haft mikil neikvæð áhrif á andlega og líkamlega
líðan og lífsgæði almennt. Vísbendingar eru um að andleg líðan geti svo aftur haft áhrif á framgang
sykursýkinnar, þar sem aukið álag og streita geta leitt til þess að honum verði lakar stjórnað en ella.
Því er afar mikilvægt fyrir þá sem þjást af sykursýki að vera meðvitaðir um eigin streitu og efla getu
sína til að takast á við streitu og álag – og hafa þannig jákvæð áhrif á stjórnun blóðsykursins. Öflug
streitustjórnun er mikilvæg, bæði sem forvörn gegn sykursýki og einnig til að bæta blóðsykurstjórnun.

Að stjórna streitunni

Fyrsta skrefið er að vakna til vitundar um ástandið og öðlast innsýn í eigin streitu og orsakavalda
hennar. Næsta skref er að vinna með þessa þætti. Veltu fyrir þér hverjir þínir streituvaldar eru og
þekktu einkenni þeirra (líkami, hugur, tilfinningar og hegðun). Taktu sérstaklega eftir streituvaldandi
eða óhjálplegum viðhorfum og hugsunum. Hvað er það sem þú gerir mögulega meira eða minna af
undir álagi? Veltu fyrir þér hversu skynsamlegt eða hjálplegt það er.

Nokkur streituráð:

  • Hlúðu vel að næringu, hreyfingu og svefni.
  • Temdu þér að vinna með hugsanir og viðhorf.
  • Einblíndu á það sem er í jafnvægi hjá okkur og gengur vel.
  • Iðkaðu hugleiðslu og/eða slökun.
  • Sinntu áhugamálum og hlúðu að því sem þér þykir almennt nærandi.
  • Vertu í félagslegum tengslum.
  • Sýndu sjálfum þér umburðarlyndi og hvatningu.
  • Forgangsraðaðu

Höfundur:
Sigrún Ása Þórðardóttir
sálfræðingur og fagstjóri geðræktar og hugarhreysti

Greinin birtist fyrst í sérblaði Morgunblaðsins í tilefni af “Sigraðu sykurinn”.