Jólagleði og sátt

Öll viljum við eiga gleðileg jól og upplifa að tíminn í aðdraganda jólanna sé gefandi og skemmtilegur. En sumir upplifa að í desember fjölgi verkefnum – sem síðan eykur álagið og streitan hleðst upp samhliða því. Hér fyrir neðan má sjá nokkra punkta sem gott er að hafa í huga fyrir þá sem vilja komast sem best í gegnum aðventuna ásamt því að njóta ferðarinnar í sátt við sjálfan sig.

Fylgdu hjartanu
Hafðu jólin og undirbúninginn eins og þig og fjölskylduna langar til en ekki eftir gömlum gildum eða hefðum einvers annars.

Forgangsraðaðu verkefnum
Settu í forgang að sinna þeim verkefnum sem munu veita þér og þínum gleði og vellíðan.

Njóttu hverrar stundar
Þjálfaðu huga þinn í núvitund, að vera til staðar þar sem þú ert hverju sinni. Þannig nýtur þú best þess sem þú gerir.

Útivist
Haltu áfram að hreyfa þig reglulega og farðu í göngutúra. Til dæmis væri sniðugt að fara í stuttan göngutúr í hádeginu þegar dagsbirtan er sem mest. Þannig er hægt að endurhlaða orkuna og öðlast hugarró í annríki dagsins.

Skjálaus tími
Taktu þér daglega stund eftir vinnu frá skjánotkun, hvort sem um er að ræða tölvu, síma eða sjónvarp. Þá dregur þú úr áreitinu, hugurinn hvílist og þú ræður betur við verkefnin sem bíða þín.

Hlátur og gleði
Að hlæja er vanmetin leið til að endurhlaða orkuna svo skapaðu þér stundir með góðum vini eða horfðu á góða kvikmynd þar sem þú getur brosað og losað um hláturtaugarnar.

Vertu vinur þinn
Hlúðu vel að þér og líka þeim sem þér þykir vænt um. Með því að hvílast nóg og passa að endurhlaða orkuna verðum við betur í stakk búin að takast á við streitu og að vera til staðar fyrir okkur sjálf og fólkið okkar.

Við verðum bara svo margfalt skemmtilegri þegar okkur líður vel og erum í góðu jafnvægi.

Anna Sigurðardóttir
sálfræðingur